Print

Kynning á Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna

 

Markmið þessarar kynningar er að skýra útgerðum og áhöfnum skipa frá starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, hlutverki þeirra og efni laga nr. 13/1998 sem mynda lagagrundvöll starfseminnar. Jafnframt á hún að upplýsa útgerð og áhöfn um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt sömu lögum. Þar af leiðandi óskar Verðlagsstofa eftir að útgerð komi þessum upplýsingum á framfæri við áhafnir sínar.

Verðlagsstofa skiptaverðs tók til starfa með lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og er lögin að finna hér eða undir tenglinum "Lög" á vallistanum "Um VSS".

Verðlagsstofa er staðsett á Akureyri og eru starfsmenn hennar þrír í þremur stöðugildum. Forstöðumaður Verðlagsstofu er Ögmundur Knútsson. Starfsmennirnir eru Ingveldur Jóhannesdóttir deildarstjóri sem sér um daglegan rekstur stofunnar, Árni Skúlason, Eyrún Elva Marinósdóttir og Jóhann Þórhallsson, sérfræðingar.

 

Tilgangur laga nr. 13/1998 er að tryggja opinbert eftirlit með því að útgerðir geri rétt upp við sjómenn. Hlutverk Verðlagsstofu er nánar rakið í 1. gr. laganna. Þar kemur fram að stofnunin skuli fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að því að það sé rétt og eðlilegt. Hafi samtök útvegsmanna og sjómanna gert með sér samkomulag um tiltekin markmið um viðmið varðandi verðlagningu á fiski við uppgjör á aflahlut sjómanna skal Verðlagsstofa og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna stuðla að því að markmið þeirra samninga nái fram að ganga, sbr. 2. mgr. 1. gr. Til að framfylgja því eftirliti sem Verðlagsstofa hefur með höndum er sú kvöð m.a. lögð á útgerð skips að senda án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru á milli útgerðar og áhafnar, sbr. 4. gr. laganna.

Eftirlitshlutverk Verðlagsstofu er að meginstefnu þríþætt. Stofnuninni er í fyrsta lagi skylt að afla ítarlegra gagna um fiskverð og skal hún reglulega birta upplýsingar um fiskverð þannig að þær gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Í annan stað getur stofnunin tekið mál upp að eigin frumkvæði, hvort sem er eftir ábendingum eða eftir eigin skoðun. Loks skal stofnunin gera svokallaðar úrtakskannanir.Til að fylgjast með því að við uppgjör á aflahlut áhafna sé lagt til grundvallar söluverðmæti afla getur stofnunin annað hvort beitt úrtakskönnun eða skoðað einstakt mál fyrir sig.

Við upplýsinga- og gagnaöflun skal Verðlagsstofa gæta meðalhófs og gæta að því að kröfur um upplýsingar og gögn séu í samræmi við tilefni. Við athugun einstakra mála getur Verðlagsstofa krafið sjómenn, útgerðir, kaupendur afla, flutningsaðila fiskmarkaði, umboðsmenn og aðra þá sem milligöngu hafa um sölu á afla um allar nauðsynlegar upplýsingar, sbr. 5. gr laga nr. 13/1998.

Starfsmenn Verðlagsstofu og fulltrúar í úrskurðarnefnd eru bundnir þagnarskyldu um allt er varðar hagi tiltekinna einstaklinga eða fyrirtækja og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, sbr. 17. gr laga nr. 13/1998.

Telji Verðlagsstofa við athugun einstakra mála eða í úrtakskönnun, að misræmi sé milli gagna um söluverðmæti afla og þess verðs sem lagt er til grundvallar hlutaskipta og að ekki séu fram komnar fullnægjandi skýringar á því misræmi, tilkynnir hún útgerð og áhöfn um það með rökstuddu áliti. Fulltrúar hagsmunaaðila í úrskurðarnefnd hafa einnig aðgang að álitinu. Þar með er hlutverki Verðlagsstofu lokið. Það er í höndum útgerðar og áhafnar að ljúka málinu, sbr. 6. gr. laga nr. 13/1998.

 

Verðlagsstofa skiptaverðs, Borgum v/Norðurslóð, 600 Akureyri.

Sími 461-4480 og Fax 461-4483

Vefsíða: www.verdlagsstofa.is - Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

 

Go up