Yfirlýsing 25. ágúst 2020 Print

Yfirlýsing frá Verðlagsstofu skiptaverðs

Í yfirlýsingu sem Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) sendi frá sér þann 12. ágúst síðastliðinn var greint frá upplýsingum sem VSS tók saman í janúar 2012 um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sendi úrskurðanefnd sjómanna og útvegsmanna í byrjun árs 2012.

Við áframhaldandi leit í gögnum VSS að upplýsingum sem varða útflutning á karfa á þessum árum hefur komið í leitirnar vinnuskjal með greiningu á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009. Vinnuskjalið sem ber yfirskriftina: „Greining á sölu á óunnum karfa sem fluttur var til Þýskalands á árunum 2008 og 2009“ var tekið saman af þáverandi starfsmanni VSS og sent úrskurðarnefnd í apríl 2010. Viðkomandi starfsmaður lét af störfum hjá Verðlagsstofu vorið 2010.

Um er að ræða þriggja blaðsíðna ódagsett og óundirritað skjal með töflum og tölulegum upplýsingum um útflutning á óunnum karfa til Þýskalands árin 2008 og 2009, um meðalverð og magn í beinni sölu og á markaði innanlands þessi ár ásamt yfirliti um útgefin meðalviðmiðunarverð á karfa hjá VSS eftir mánuðum árin 2008 og 2009. Í lok skjalsins dregur þáverandi starfsmaður VSS ályktun af þessum gögnum í nokkrum línum. 

Ástæða þess að ekki var getið um tilvist þessa skjals í fyrri yfirlýsingu VSS frá 12. ágúst er að það fannst ekki fyrr en nýlega þar sem það var vistað utan hefðbundins skjalakerfis VSS á aflögðu gagnadrifi sem núverandi starfsmenn hafa fæstir aðgang að.

 

Trúnaður

Þau gögn sem Verðlagsstofa safnar og/eða vinnur fyrir úrskurðarnefndina eru trúnaðargögn, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1998, og eru starfsmenn Verðlagsstofu, sem og nefndarmenn úrskurðarnefndar, bundin þagnarskyldu. Starfsmenn Verðlagsstofu og nefndarmenn úrskurðarnefndar geta þar af leiðandi ekki tjáð sig efnislega um einstaka mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni né þau gögn sem heyra þar undir.

 

 


 

Tilkynningar

Afgreiðslutími mánudaga-fimmtudaga

kl. 9:00 - 15:00

Föstudaga kl. 9:00 - 14:00

Millifærslur óheimilar án fiskverðssamninga

Að gefnu tilefni skal bent á að skv. 4. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skipaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, er útgerð skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar eins og kjarasamningar segja til um að skuli gera.

Í 6. gr. sömu laga er tekið fram að Verðlagsstofa skuli að beiðni Fiskistofu og í tilefni af framsali aflamarks skv. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, staðfesta að fyrir liggi samningur á milli útgerðar og áhafnar um fiskverð til uppgjörs.

Flutningur aflamarks á skip er því ekki heimill nema fyrir liggi hjá Verðlagsstofu fiskverðssamningur á milli áhafnar og útgerðar eða yfirlýsing um að ekki sé greiddur aflahlutur til annarra sjómanna en eiganda/eigenda (einn á báti). Eyðublöð þess efnis má finna hér efst á síðunni, undir liðnum Eyðublöð.

 _______________________________________ 

Til sjómanna og útvegsmanna v/ byggðakvóta

Til þess að útgerð geti flutt aflamark á skip verður að liggja fyrir fiskverðssamningur á milli útgerðar og áhafnar, um ráðstöfun afla, sem samþykktur hefur verið af Verðlagsstofu. Verð á þorski, ýsu, karfa og ufsa í beinum viðskiptum á milli skyldra eða óskyldra aðila skal aldrei vera lægra en viðmiðunarverð á þessum tegundum er hverju sinni.

Nokkuð hefur borið á því að útgerðir sem hafa fengið byggðakvóta og landa afla í heimabyggð telja sig geta samið við sjómenn um verð sem er talsvert undir viðmiðunarverði. 

Skv. 7. gr. reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016, er slíkt ekki leyfilegt.

Af þessu tilefni vill Verðlagsstofa benda útgerðum og sjómönnum á að Verðlagsstofa getur ekki samþykkt slíka fiskverðssamninga á milli útgerða og áhafna. Það er með öðrum orðum óheimilt að gera slíka samninga.

____________________________________

Afgreiðslutími:

mánudaga-fimmtudaga kl. 9:00 - 15:00
föstudaga kl. 9:00 - 14:00

 

Go up